top of page
Search

Fréttaskot 4.mars 2022





Sýningin "líkamar" í Magma Center

Nú stendur yfir hin heimsþekkta sýning "Bodies" (líkamar) í ráðstefnu- og sýningarhúsinu Magma Center í Adeje á yfir 800fm svæði þar sem er að finna alvöru mannslíkama og líffæri sem vandlega hafa verið varðveitt í þar til gerðu ferli. Hægt er að fræðast um margþætta starfsemi mannslíkamans og líffæra hans og er sýningarsvæðinu skipt upp í 6 svæði, hvert og eitt tileinkað mismunandi starfsemi líkamans, m.a. beinabyggingu, taugakerfi, öndunarkerfi o.s.frv. Þessi sýning er sú mest heimsóttasta í sögunni af þessu tagi en hana hafa heimsótt yfir 30 milljónir manna í 18 löndum og er mjög fræðandi fyrir alla aldurshópa. Sýningin stendur yfir til 28. mars.





Zip línur á Teresitas ströndinni

Til stendur að setja upp tvær zip línur yfir Teresitas ströndinni sem er rétt norður af höfuðborginni Santa Cruz. Munu línurnar vera lagðar frá öðrum enda strandarinnar upp í fjalli, og ná yfir til bæjarins San Andrés hinum megin við ströndina sem verður þá endastöðin. Þar mun fólki gefast tækifæri til að njóta fallegs útsýnis yfir ströndina á meðan rennt er á 80-100km. hraða á klukkustund eftir kílómetra langri zip-línunni. Mun önnur línan verða 950m löng og með 23% halla með fall upp á 226 metra en hin línan mun verða 905m löng með 14% halla og fall upp á 81 metra.




Skemmtiferðaskip

Árið byrjar vel á Tenerife í sambandi við komu skemmtiferðaskipa til eyjarinnar en í janúarmánuði komu 39 skip til hafnar í Santa Cruz og um 44.000 ferðamenn með þeim. Þetta er meiri fjöldi en kom í janúar árið 2019 sem gefur til kynna að allt sé nú á uppleið eftir þessi tvö Covid ár og er útlitið gott fyrir árið 2022 þar sem fyrirhugað er að 360 skip leggist að höfn yfir árið, þar af 6 skip í Los Cristianos höfninni. Yfir árið í fyrra, 2021, fóru um 4,5 milljónir manna í gegnum höfnina í Santa Cruz (bæði af skemmtiferðaskipum og ferjum) sem gerir hana aðra í röðinni yfir allan Spán.





Möndlutré í blóma

Undanfarnar vikur hefur verið hægt að sjá möndlutrén í fullum blóma, þó reyndar sé tímabilið að klárast núna. Í kringum bæinn Santiago del Teide er mikið að finna af þessum trjám og skipuleggur bærinn ávallt gönguleiðir og viðburði í kringum þetta tímabil þar sem 11 veitingastaðir bjóða göngugörpum og fleirum upp á sérstaka matseðla og einnig eru margar litlar verslanir í bænum sem bjóða uppá ýmsan varning og matarkyns sem unnið er úr möndlum og möndlublómunum.






Framtíð í fjárfestingum á Kanarí eyjum

Financial Times hefur gefið út lista yfir þau svæði í Evrópu þar best er að fjárfesta í framtíðinni, eða "European Regions of the future". Á listanum, sem telur 356 svæði í Evrópu, eru Kanarí eyjarnar 10di besti kosturinn. Þá er litið til framfara á sviðum eins og t.d. í sjávarlíffræði og -útvegi, umhverfismálum, sprotafyrirtækjum o.s.frv. Þá eru eyjarnar listaðar sem fjórða besta svæðið í Evrópu með bestu tengingu við önnur 400 svæði í Evrópu, á eftir Amsterdam, Zurich og Rotterdam en miklar flugsamgöngur um eyjarnar þjóna ekki eingöngu ferðaþjónustunni heldur eru líka álitnar sem jákvæður þáttur og aðdráttarafl fyrir fjárfestingar hér í framtíðinni.




Bílabíó

Nú í byrjun mars mánaðar er fyrirhugað að opna fyrsta bílabíó á Kanarí eyjum, og eitt það stærsta sinnar tegundar á Spáni öllum. Verið er að setja upp bílabíóið á 16.000fm svæði í Amarilla Golf rétt hjá suður flugvellinum á Tenerife, Reina Sofia, og getur tekið á móti allt að 650 bílum. Hugmyndin kom í kjölfar takmarkana sem hafa verið á þessum Covid tímum og allskonar útisvæði orðin vinsælli vegna þess.




2 ár frá fyrsta Covid smitinu á Tenerife

Þann 24ða febrúar voru liðin 2 ár frá fyrsta Covid smitinu á Tenerife en það greindist á hótelinu H10 Costa Adeje Palace. Allir á hótelinu voru settir í einangrun og mikill fréttaflutningur þaðan dagana á eftir. Þó smituðust ekki nema 7 manns á hótelinu þó svo að tugi manna var haldið þar í einangrun.

Tenerife hefur nú verið færð niður á stig 3, sem þýðir samt ekki miklar breytingar en nýgengi smita s.l. 7 daga er 396. Tölurnar þann 1. mars sýndu þó einungis 272 ný smit og aktív eru nú tæplega 4.000 á Tenerife.

Enn er grímuskylda hér innandyra, en forsætisráðherra Spánar, Pedro Sanchez, hefur gefið það út að hún muni senn falla niður að öllu leyti, mörgum til mikilla gleði.




Flóttafólk

Hingað til eyjanna koma bátar frá Afríkuströndum nánast daglega, og í þeim yfirleitt nokkur hundruð, jafnvel yfir 1.000 flóttamenn í hverri viku.

Nú er svo komið að kerfið hér á eyjunum getur ekki tekið á móti fleiri börnum undir lögaldri sem koma oft án fjölskyldu eða vina yfir sundið. Hingað hafa komið s.l. mánuði yfir 2800 ólögráða einstaklingar en einungis hafa verið sendir rúmlega 200 í burtu, t.d. til meginlands Spánar. Þessum börnum er veitt sú aðstoð sem þeim ber réttur til, t.d. aðgangur að menntun en eins og fyrr segir, þá er kerfið orðið yfirfullt og vandamál tengd þessu aukast með hverri viku. Margir sem koma segjast vera yngri en 18 ára til að fá betri meðferð og þjónustu en eru ekki með pappíra þess til sönnunar. Það er tékkað á því með aldursgreiningu, og jafnvel hafa einstaklingar sem sagst hafa verið undir lögaldri í raun verið allt yfir 40 ára.




0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page