top of page
Search

Fréttaskot frá Tenerife 5.maí 2022

Spítalinn Mojón stækkaður


Eini ríkisrekni spítalinn á suðurhluta Tenerife er staðsettur fyrir ofan Los Cristianos, eða í Chayofa hverfinu og heitir Mojón, eða Hospital Sur. Nú standa fyrir framkvæmdir um stækkun spítalans og mun hann verða tvöfalt stærri þegar framkvæmdirnar klárast, eða um 47.000 fm að stærð en kostnaðurinn mun verða í kringum 40 milljónir evra.

Helsta breytingin verður sú að hægt verður að bjóða upp á meiri þjónustu, þ.e. á öðrum sviðum en hingað til hefur oft þurft að senda sjúklinga á sjúkrahúsin í höfuðborginni, Santa Cruz. Þjónusta sem mun bætast við þá sem þegar er boðið upp á sjúkrahúsinu verður m.a. bráðamóttaka, blóðskiljunar- og barnalækningardeild.Lögreglan leggur hald á falsaðar vörur


Á undanförnum vikum hefur lögreglan á suður Tenerife, þá aðallega í Los Cristianos, Las Americas og Costa Adeje, lagt hald á um 1.600 falsaðar vörur, eins og t.d. fótboltabúninga og tískuvörur frá þekktum lúxus vörumerkjum. Með lögreglunni rannsaka fulltrúar frá þeim vörumerkjum sem um ræðir til að kanna hvort vörurnar séu falsaðar eður ei. Talið er að markaðsvirði þessara vara sem hafa verið gerðar upptækar sé allt að 500.000 evrur, eða tæplega 70 milljónir króna. Segja þeir þetta bara vera byrjun á herferð gegn fölsuðum vörumerkjum og enn sé mikil vinna fyrir höndum.
Reykingar bannaðar á ströndum


Meðal takmarkana undanfarinna tveggja ára (vegna Covid) voru þær að bannað var að reykja á almennings ströndum og baðsvæðum. Nú hefur verið ákveðið að halda þessu banni áfram, m.a. til að sporna við uppsöfnun sígarettu stubba sem fólk skilur gjarnan eftir sig. Þá er líka börum og veitingastöðum á ströndum eða við strönd bannað að nota einnota plastílát og skyldað að passa upp á að hafa tilheyrandi ruslatunnur þar sem fólk getur losað sig við rusl. Þó gætu verið einhver svæði þar sem þetta bann mun ekki taka gildi og fengist hefur leyfi frá borgarráði þess svæðis.

Fjöldi ferðamanna yfir páskana


Koma ferðamanna yfir páskana til Tenerife fór fram úr björtustu vonum og hafa ekki verið eins margar gistinætur verið seldar síðan fyrir Covid. Föstudagurinn langi var sá dagur sem flest flug fóru í gegnum flugvelli á Kanarí eyjum síðan fyrir Covid.

Segja spekingar að sumarið lítur mjög vel út hvað varðar komu ferðamanna til Tenerife og eru miklar vonir um góða tíð í vændum.

Tónleikar á Tenerife


Tónleikahald er byrjað á fullu hér á eyjunni án allra takmarkana vegna Covid. Fyrstu stóru útitónleikarnir, Greenworld electronic music festival, voru haldnir þann 16. apríl þar sem þúsundir manna komu saman og nutu þess að skemmta sér grímulaus. Voru tónleikarnir haldnir í Amarilla Golf, eða Golf de Sur, og verða aftur svipaðir tónleikar haldnir þann 16. júlí og aftur 30. júlí á sama stað (Reggaeton beach festival) sem mun standa frá kl. 12:00-00:00.

Þá verður líka hægt að sækja aðra tónleika á eyjunni en m.a. koma Pet Shop Boys hingað og verða með tónleika í Puerto de la Cruz bænum þann 14. júlí.

Hljómsveitin Coldplace, sem er besta "coverband" Coldplay, verða með tónleika þann 20. maí í Castillo San Miguel sem er í bænum San Miguel, fyrir ofan Chafiras bæinn.

Þann 28. júlí verður Alejandro Sanz með tónleika á golfvellinum í Costa Adeje (Campo de golf Costa Adeje), en hann er einn frægasti tónlistamaður Spánar.

Í Puerto de la Cruz verða einnig nokkrir tónleikar frá 8.-24. júlí (Cook music festival) en þá er mikil hátíð í þeim bæ. Þar koma m.a. fram Luis Fonsi, Lola índigo og fleiri tónlistarmenn. Þá verður einnig önnur tónlistarhátíð í bænum í ágúst, eða Phe festival.


Fiestas de mayo (Maí hátíðarhöldin)


Nú fer svo sannarlega að færast líf á göturnar í höfuðborginni sjálfri, Santa Cruz, því maí hátíðahöldin eru byrjuð þar í bæ. "Dagur krossins" (Día de la cuz) ber upp á þann 3. maí ár hvert og er opinber frídagur í þeim borgum og bæjum sem bera nafn sem inniheldur orðið "kross" (cruz) eins og t.d. Santa Cruz og Puerto de la Cruz.

En þessi dagur markar upphaf nokkurra vikna hátíðahalda í höfuðborginni þar sem þúsundir, reyndar tugþúsundir, manna munu skemmta sér á götum borgarinnar. Dagskráin þessar vikur er mjög fjölbreytt en m.a. er haldin "keppni" þann 3. maí þar sem krossa listaverk, búin til úr allskonar efnisvið eru sýnd um borgina og valinn er flottasti krossinn. Þá er líka valin "drottning" hátíðarinnar og dansleikir víða um borgina á völdum dögum.Mueca listahátíðin í Puerto de la Cruz


Helgina 5.-8. Maí verður haldin hátíð í bænum Puerto de la Cruz á norðurhluta eyjarinnar sem kallast Mueca. Þar verður dagskrá frá morgni til kvölds þessa fjóra daga þar sem boðið verður upp á allskonar atriði listamanna um allan bæinn og á nánast öllum götum bæjarins. Var hátíðin líka haldin árið 2020 og í fyrra, 2021 þrátt fyrir Covid en með vissum takmörkunum en verður hún mun stærri núna í ár enda er þetta 20sta afmælisár hátíðarinnar. Lagt er upp úr jafnri kynjaskiptingu en nánast jafn margir karlmans og kvenmans listamenn sýna atriði á hátíðinni. Hægt er að sjá dagskrá hátíðarinnar hér: https://www.festivalmueca.com/en/
Vínkynning í Madrid


Vínframleiðendur frá Tenerife eru nú um þessar mundir með kynningar á vínum sínum í sjálfri höfuðborg Spánar, Madrid. Þar eru komnir saman helstu vín (bodegas) frá Tenerife til að kynna hinar fjölmörgu tegundir vína sem framleidd eru á eyjunni í þeim tilgangi að prómóta og auka útflutning til meginlandsins en u.þ.b. 100 bodegas sem framleiða vín eru á Tenerife. Þarna koma til að prófa vínin stór nöfn úr veitinga og hótelgeiranum á Spáni. Munu þessar kynningar standa yfir í höfuðborginni til 15. maí.Hótel fær "Safe Fun" viðurkenningu


Bahía Príncipe Fantasíu hótelið, sem staðsett er í bænum Golf de Sur, rétt við suður flugvöll Tenerife er fyrsta hótelið á Spáni til að fá þessa viðurkenningu sem er opinber vottun þess að sundlaugargarðurinn, rennibrautir og aðstaðan uppfyllir öll skilyrði um öryggisatriði á evrópskum staðli til að fyrirbyggja slys og lágmarka slysahættu. Fantasíu hótelið opnaði í nóvember 2018


og hefur verið mjög vinsælt meðal ferðamanna, sérstaklega vegna sundlaugargarðsins og býður líka uppá fjölbreytta skemmtidagskrá.0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page