top of page
Search

Júlí fréttaskot frá Tenerife

Tvær nýjar ferðir hjá okkur komnar á dagskrá. Ný matar- og vínupplifunarferð og svo stjörnuskoðunarferðin


Lomo Molino

Önnur ferðin nefnist Lomo Molino og er vínsmökkunarferð á norðurhluta eyjunnar. Við kíkjum á Lomo Molino sem er staðsettur í 540 metra hæð alveg á bjargbrún með stórkostlegu útsýni yfir norðrið.

Við fáum að smakka á vínum frá 5 mismunandi vínframleiðendum á Tenerife. Við borðum líka frábæran mat í þessu magnaða umhverfi.

Allar frekari upplýsingar hér:
Stjörnuskoðun

Svo er það stjörnuskoðunarferðin okkar. Við vinnum þessa ferð í samvinnu við vin okkar Juan Pablo sem einhverjir þekkja úr Matur&Vín ferðinni okkar. Við keyrum upp i fjall og fylgjumst með sólsetrinu í um 2200 metra hæð undir leiðsögn Samuel sem er stjörnusérfræðingurinn okkar.


Eftir sólsetur er haldið að Bodega Lagar de Chasna þar sem dýrindis máltið og drykkir bíða okkar. Á meðan á borðhaldinu stendur, fræðir Samuel okkur um undur himingeimsins þannig að við erum orðin einhverju nær þegar við göngum síðan út til að skoða stjörnurnar. Samuel er frábær ljósmyndari og tekur myndir af öllum, sem við getum svo sent ykkur, ykkur að kostnaðarlausu.

Allar frekari upplýsingar um ferðina hér:

Formula 1 á Tenerife

Carlos Sainz ökumaður Ferrari í Formúlu 1 kom til Tenerife strax að loknum kappakstrinum í Austurríki, til að vera viðstaddur blaðamannafund þar sem tilkynnt var um gerð akstursbrautar á Tenerife.


Þetta er eitthvað sem hefur staðið til að gera í mörg ár, raunar áratugi, en vegna ýmissa áskorana í veröldinni hefur það tafist. Nú er hins vegar kominn skriður á málið og kappakstursaðdáendur á Canary eyjum geta látið sig hlakka til að fá mögulega formúluna til Tenerife. Það eru þó ekki allir ánægðir með þetta verkefni og fjölmargir sem vilja meina að þetta sé tímaskekkja og muni ekki vera eyjunum til bóta vegna t.d mikillar mengurnar sem af þessu hlýst. Brautin á að vera á suðurhluta eyjunnar í bæ sem heitir Atogo, ekki svo langt frá flugvellinum.

Mikill hiti


Hér er hefur verið gríðarlega heitt í júlí og má segja að sumarið hafi komið með hvelli, eftir dapurlegan júnímánuð svona veðurfarslega séð. Hitabylgjan sem dynur á Evrópu núna, nær þó sem betur fer ekki hingað suðureftir vegna háþrýstisvæðis sem er yfir eyjunum. Samt sem áður eru hér dag eftir dag meira en 30 gráður en við erum svo heppin að njóta alltaf smá hafgolu. Þegar það er svona heitt er mikilvægt að taka inn salt á móti öllum vökvanum sem maður drekkur. Það er ekki nóg að drekka bara vatn. Við mælum með töflum sem heita “HidraSal” þetta er salt og steinefnablanda sem hentar vel fyrir okkur Íslendingana í hitanum.
HM á Spáni og Portúgal


Nú er sá möguleiki í stöðunni að Spánn og Portúgal geti haldið HM 2030 í fótbolta. Yfirmaður knattspyrnumála hjá Las Palmas, Gran Canary, hefur sett fram tillögu um að eitt af svæðunum á Spáni sem kæmi til greina væri völlur Las Palmas á Gran Canary. Þetta er allt á frumstigi en engu að síður búið að leggja þetta til, þá er bara að bíða og sjá hvað gerist.
Meson Castellano


Veitingastaður mánaðarins hjá okkur er Meson Castellano, einn af uppáhalds stöðunum hans Svala. Ekta Canary tapas og steikarstaður. Það er sennilega ekki ofsagt að kjötskápurinn þeirra sé frá guði. Algjörlega magnaðar steikur og þá sérstaklega Ribeye steikin sem maður klárar að elda á borðinu.


Tapas réttirnir eru virkilega góðir, svona fyrir þá sem vilja ekki fara beint í steikina. Frábær vínskápur og ljóst að þau sem kíkja á Meson ættu að koma alsæl út.Ath. þetta er bara okkar mat á staðnum.

0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page