top of page
Search

Fréttabréf Tenerife Ferða Apríl 2022

Updated: Apr 8, 2022



Skrifstofan

Loksins er komið að því að við opnum skrifstofu sem er fyrir alla Íslendinga sem koma til Tenerife. Við getum veitt ykkur upplýsingar um það sem þið viljjið og vonandi aðstoðað ykkur við að njóta frísins ennþá betur. Það skiptir engu hvort þið eruð á eigin vegum eða með ferðaskrifstofu, þið eruð alltaf velkomin.


Við erum á fullu þessa dagana að koma okkur fyrir á skrifstofunni og gera okkur klár að bjóða ykkur velkomin. Við munum auglýsa opnun á allra næstu dögum.


Skrifstofan verður opin alla virka daga. Við erum staðsett á Amerísku ströndinni milli Vista Sur strandarinnar og Playa de El Camison. 

Við hlökkum til að sjá þig. 




Við leitum af fólki í vinnu 

Vantar þig vinnu á Tenerife? Okkur vantar fólk til vinnu sem fyrst. Þetta snýst um að fara í ferðirnar okkar sem fararstjóri, vera til taks á skrifstofunni og taka á móti fólki á flugvelli og aðstoða við innritun. Aðalmálið er að vera hress og skemmtileg/ur og njóta þess að vera innan um fólk. Það geta allir lært þær upplýsingar sem við erum að miðla. 

Erum við að leita að þér? Sendu okkur póst á: bokun@tenerifeferdir.is með titlinum “ Vinna” 


Fréttir frá Tenerife


Gríman burt?


Nú liggja fyrir drög hjá Canary stjórninni að afnema grímuskyldu frá og með 19 apríl. Nú er bara að vona að þeir geri eins og nánast allar aðrar þjóðir í Evrópu og afnemi skylduna (þó fyrr hefði verið).

Engar eða litlar aðrar hömlur eru á Tenerife, þeir sem eru með gild evrópsk bólusetningarvottorð þurfa ekki að fylla út: www.spth.gob.es við komuna. Óbólusettir þurfa að sýna fram á neikvætt próf og fylla út upplýsingar á fyrrgeindri slóð.



Samgöngur (göng í Santiago del Teide)


Einhverjar stærstu og kostnaðarsömustu vegaframkvæmdir á Spáni eiga sér nú stað á Tenerife en það er gerð 11 km vegarkafla og þar af 5km umferðaganga sem munu liggja á milli Santiago del Teide og El Tanque og mun stytta hringveginn um eyjuna talsvert, eða um ca. 20 km. Það mun þá ekki taka nema um 1 klukkustund og 30 mín að keyra allan hringveginn og eru þetta gífurlega miklar samgöngubætur fyrir eyjuna. Byrjað var á framkvæmdunum haustið 2020 og áætlað var að þær myndu taka um 4 ár svo vonast er til að göngin verði tilbúin eftir ca. 18 mánuði. Venjulega ná þeir að komast áfram um 4m á dag en einhver vandamál hafa orðið til þess að tafir hafa orðið á framkvæmdunum. Eins og venjan er þá er ómögulegt að segja til um hvenær göngin muni opna en vonandi verða tafirnar ekki miklar.



Góð ferðamannaspá


Ferðarisinn TUI, sem u.þ.b. helmingur ferðamanna kemur með á eyjarnar, hefur birt jákvæðar spár um komandi sumar. Þeir telja að verði metár í komu ferðamanna næsta sumar, en sala flugsæta til Spánar hefur aukist hvað mest hingað til Kanarí eyjanna (yfir allan Spán). Héldu yfirmenn TUI og fleiri hér á Tenerife ráðstefnu fyrir stuttu þar sem farið var yfir þessi mál.



Veðrið


Veðrið hefur sýnt á sér ýmsar s.l. vikur, m.a. var ansi hvasst á ferðamannasvæðinu á Tenerife mánudaginn 14. mars, eitthvað sem er ekki algengt og skildi hvassviðrið eftir sig brotin pálmatré, önnur tré og fleira rusl víðast hvar um svæðið. Þá hefur snjóað mikið uppí fjöllunum og allt niður í 1800m hæð sem er ekki algengt en hægt og bítandi hverfur snjórinn þarna uppfrá. Við stjörnuskoðunarstöðina á Teide fjallinu (Izaña, 2.400m) mældust vindhviður allt að 170km/klst og hitastigið -5, það kaldasta sem mældist á öllum Spáni þann daginn. Aðgengi að Teide fjallinu var lokað og viðvaranir stóðu yfir í nokkra daga vegna vinda og öldugangs en öldurnar náðu allt að 6m hæð sumstaðar kringum eyjuna og létust þrír einungis á 2 dögum er þeir féllu í sjóinn umhverfis eyjuna. Komu fréttir m.a. af miklum skemmdum um borð í ferjum Fred Olsen þar sem bílar skullu saman, utaní ferjuna og innandyra fóru veitingar á flug út um allt.



Rafmagnsverð


Verð á rafmagni hefur hækkað gífurlega á s.l. mánuðum hér á eyjunum, allt að 40% og mörg fyrirtæki sjá rafmagnsreikninga sína hafa nánast tvöfaldast. Hér skiptist verðið á rafmagninu í 3 hluta, eftir tíma dags og hvaða daga er um að ræða. Ódýrasti tíminn er t.d. um helgar og frá miðnætti til kl. 8 morgunin eftir á virkum dögum. Dýrasti tíminn er á virkum dögum milli kl. 10-14 og svo aftur milli kl. 18-22. Þetta kemur sér mjög illa fyrir mörg fyrirtæki sem vinna sem mest á þessum tíma.

Hér er mikið rætt um sjálfbæra orku eins og fram hefur komið í fyrri fréttabréfum, og það eru stór svæði á suðurhluta Tenerife þakin sólarpanelum, en því miður er mikið af þeim ekki í notkun. Þetta hefur víst eitthvað að gera með spillingu, m.a. vegna olíufyrirtækjanna.



Fréttir af beinu flugi frá Íslandi til Tenerife


Þann 15. mars kom frétt í TVCanaria um það að f.o.m. 8. júní næstkomandi væri boðið upp á bein flug frá Íslandi þar sem Niceair væri að fara af stað. Þar með kæmu um 150 Íslendingar hingað í beinu flugi á viku, sem myndi þýða um 600 manns í mánuði. Höfundur sendi tölvupóst á sjónvarpsstöðina og leiðrétti þetta þar sem hingað hafa verið bein flug frá Íslandi síðan árið 2005 og nú eru um 8 flug vikulega þar sem um 1.000 Íslendingar koma til að njóta paradísarinnar hér á Tenerife. Svar barst frá TVCanaria þar sem þeir lofuðu að kanna málið.



Hert umferðarlög


Nýlega tóku gildi ný umferðarlög sem eiga aðallega við um notkun öryggisbelta og farsíma undir stýri en það er tekið ansi hart á því hér á Tenerife. Ef lögreglan nær þér með símann í hendinni þá þýðir það 3 punktar af skírteininu og allt að 600 evru sekt (um 85þ. kr.). Höfundur lenti einmitt í klónum á þeim daginn eftir að þessi lög tóku gildi, það má víst ekki keyra með heyrnartól í eyranu, þar fóru 3 punktar og borga þarf 300 evru sekt.



Verkföll bílstjóra


Hér á eyjunum, eins og um allan Spán og víðar, hafa flutningabílstjórar verið í verkfalli vegna hækkana á olíuverði þó svo að hér hafa þessi verkföll ekki haft mikil áhrif, enn sem komið er. Samkomulag hefur verið gert þar sem lækkanir á skatt á olíu hér, það mun taka gildi fyrir flutningabílstjóra (ekki almenning þó) og gilda allavega til 31. júlí. Ekki hefur borið mikið á vöruskorti hér á eyjunum en við því mátti búast ef ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir þessi verkföll. Sem betur fer hafa sérfræðingar sagt að hér muni ekki bera á vöruskorti, allavega ekki á næstunni, en þó er ekki hægt að spá fyrir um framvindu mála, sérstaklega vegna stríðsins sem nú geysar.



Breyting á klukkunni


Þann 27. mars var klukkunni breytt hér á Tenerife, aðfaranótt sunnudags, kl. 02 hoppaði tíminn fram um eina klukkustund og varð því 03. Nú er hægt að njóta dagsbirtunnar lengur seinnipartinn þar sem ekki dimmir fyrr en um kl. 20:30 mörgum til mikillar gleði en að sama skapi er morgunsólin seinna á ferðinni, er að láta sjá sig um kl. 8 á morgnanna í stað 7 fyrir breytinguna.

2 comments

Recent Posts

See All
bottom of page